Monday, November 14, 2011

Skákþing Íslands 2006

Eftirfarandi skák var tefld í þriðju umferð í áskorendaflokki á Skákþingi Íslands 2006.

Hvítt: Sverrir Sigurðsson
Svart: Sverrir Örn Björnsson

Skákþing Íslands 2006.

Sikileyjarvörn.

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. b3

Ekki algengur leikur, en er þó einna helst beitt þegar svartur leikur e6 í öðrum leik eins og hér.

3...a6 4. Bb2 Rc6 5. c4

Verra er að leika 5. d4?! cxd4 6. Rxd4 Df6! 7. Be2 Bc5 8. c3 Dg6 og hvítur á í nokkrum vanda. Mér tókst þó að tapa þessari stöðu með svörtu í skák gegn Hrafni Loftssyni á Skákþingi Reykjavíkur 2008, en byrjuninni verður ekki kennt um það.

5...Hb8?!

Þessi leikur er of snemma á ferðinni. Betra er að bíða með Hb8 þar til hvítur hefur leikið g3. Eftir t.d. 5...Dc7 6. g3 Rf6 7. Rc3 Hb8 8. Bg2 b5 má svartur þokkalega við una.

6. Rc3 Dc7 7. d4

Nú kemur í ljós að 5...Hb8 var tímasóun.

7...cxd4 8. Rxd4 Rf6 9. Rxc6

Hér komu ýmsir aðrir leikir til greina, t.d. 9. Rc2, 9. Be2 eða jafnvel 9. Rf3.

9...bxc6



Meðan á skákinni stóð var ég ekki viss um að það væri neitt verra að drepa með d-peðinu (9...dxc6). Ég hafði þó nokkrar áhyggjur af því að hvítur gæti farið í útþenslu á drottningarvængnum með leikjum eins og a3, b4 og c5. Það var þó varla ástæða til að óttast þetta - eftir t.d. 9...dxc6 10. a3 e5 11. b4 Be7 12. c5 Be6 stendur svartur ágætlega að vígi.

10. Be2 Be7

Hér kom líka til greina að leika 10...Bc5 eða jafnvel 10...Bd6!?

11. O-O d6 12. f4 0-0 13. Kh1 c5

Hér var trúlega betra að leika 13...e5! Ef hvítur svarar með 14. f5 getur svartur undirbúið d6-d5 með Bb7, Hfd8 o.s.frv.

14. Bf3

Ef til vill var betra að staðsetja biskupinn á skálínunni b1-h7 með 14. Bd3. Annar möguleiki var svo að leika 14. Dd3 Bb7 15. Dg3.

14...Bb7 15. De1 Rd7 16. g4



Hvítur hefur sóknaraðgerðir á kóngsvængnum en veikir um leið eigin kóngsstöðu.

16...Bf6!

Það kemur sér vel að geta andæft hvíta biskupnum á b2.

17. Hd1 Hfd8 18. g5 Bd4 19. Dh4 Rf8

Nafni hafði hugsað sér að leika Bg2, Hf3-h3 o.s.frv. en hafði einhverra hluta vegna gleymt því að svartur gæti leikið Rf8 og valdað h7 tryggilega. Þetta skýrir næsta leik hvíts.

20. Dg3

Betra var að halda sínu striki og leika 20. f5 þrátt fyrir að sá leikur hóti engu sérstöku (svartur getur svarað 21. f6 með 21...Rg6). Eftir 20. f5 getur svartur leikið 20...Bc6, 20...He8 eða jafnvel 20...Da5.

20...Bc6

Ég var að undirbúa Db7 til að pressa á e4-peðið. Hins vegar kom vel til greina að leika 20...Rg6 til þess að geta svarað 21. f5 með 21...Re5. Eftir hinn gerða leik ætti hvítur að hugleiða 21. f5. Hann tekur hins vegar þá ákvörðun að reyna að skipta upp á svarta biskupnum á d4 og byrjar að undirbúa það.

21. Hd2 Db7 22. He1

Enn var trúlega skást að leika 22. f5. Hvítur ætti að leika þessu áður en svartur leikur Rf8-g6.

22...Rg6 23. Rd1?!

Svartur á öflugt svar við þessu. Ekki er sérlega gott að leika 23. h4 heldur því eftir 23...e5! vinnur svartur f4-reitinn fyrir riddarann á g6. Kannski var best að leika t.d. 23. Bg2 og bíða átekta.

23...Db4!



Sterkur leikur og mér var farið að lítast mjög vel á stöðuna. Ég ætlaði að svara 24. Hde2 með 24...e5! sem vinnur f4-reitinn fyrir riddarann. Í ljós kemur að eftir 25. f5 Rf4 26. Hc2 á svartur 26...Bf2! sem vinnur lið (tölvuleikur sem ég hafði vitaskuld ekki séð yfir borðinu). Tölvan stingur upp á 24. Bc1 og telur svartan standa aðeins betur að vígi eftir 24...e5 25. f5 Rf4 26. f6!? En það verður að segjast eins og er að fyrir hvítan er erfitt að leika núna 24. Bc1 þar sem síðustu leikir hans hafa miðað að því að skipta upp á biskupnum fyrir svarta biskupinn á d4. Þegar hér var komið sögu leist Sverri hreint ekkert á stöðuna og ákvað að fórna skiptamun til að reyna að halda sókninni gangandi.

24. Hxd4? cxd4 25. Bxd4



Hér datt mér fyrst í hug að leika 25...Dd2 sem vinnur peð (annað hvort á f4 eða a2). Eftir umhugsun fannst mér þó eins og hvítur fengi einhver sóknarfæri eftir 26. Be3 Dxa2 27. h4. Það var rangt mat því drottningarvængur hvíts er hruninn eftir t.d. 27...Dxb3 og hann á jafnframt langt í land með að skapa einhverja raunverulega ógn á kóngsvængnum. Hvíta staðan er því í stuttu máli töpuð. En ég ákvað að fara að öllu með gát og loka skálínu biskupsins á d4.

25...e5

Ekki slæmur leikur þótt 26...Dd2 hafi verið sterkara. Hinn gerði leikur veikir samt d5- og f5-reitinn auk þess sem svartur þarf að hafa auga með e5-peðinu.

26. fxe5 dxe5 27. Bc3 Da3

Hér var öruggara að leika 28...Dc5 sem valdar e5-peðið.

28. h4! Dxa2?!

Hér var tíminn farinn að styttast. Hér var betra að bregðast við hinum yfirvofandi h4-h5 með 28...Hb7. Eftir 29. h5 Rf4 30. Bxe5 er hrókurinn ekki í uppnámi á b8 eins og í skákinni.

29. h5 Rf4

Þvingað því hvítur vinnur eftir 29...Rf8? 30. Dxe5 Re6 31. Bg4.

30. Bxe5 Rd3



31. g6?!

Hvítur reynir að sækja. Ég átti von á 31. He2 sem er betri leikur. Eftir 31...Dxb3 32. Bxb8 Dxb8 33. Dxb8 Hxb8 34. Re3 er jafnt í liðsafla og hvítur má þokkalega við una. Svartur getur trúlega betrumbætt þetta afbrigði með 32...Dxd1+ 33. Kh2 Db3 34. Bc7 He8 og stendur þá betur. Á hinn bóginn var 31. Bxb8? Rxe1 mjög slæmt fyrir hvítan.

31...Rxe5

Ég var afskaplega feginn að losna við biskupinn og lék þessu því að bragði.

32. gxh7+ Kxh7 33. Dxe5



Svartur er skiptamun yfir en þarf engu að síður að gæta sín þar sem varnir kóngsins eru ekki svo traustar sem skyldi.

33...Dd2

Ég hafði nokkrar áhyggjur af 34. Df5+ Kg8 35. h6 og ákvað því að koma drottningunni í vörnina á h6.

34. Hg1 Dh6 35. Re3 Bd7

Ég taldi þennan leik þvingaðan vegna hótunarinnar 36. Rf5, en gat raunar einnig leikið 35...Df6!?

36. Rf5 Bxf5 37. Dxf5+ Kh8 38. Bd1

Í tímahrakinu valdar hvítur b-peðið, en sterkara var að leika 38. e5 með hugmyndinni 38...Hxb3 39. Dxf7 með tvíeggjaðri stöðu.

38...Df6?!

Það er skiljanlegt að svartur freisti þess að skipta upp á drottningum í stöðunni, en hinn gerði leikur hefur þann ókost (fyrir utan tvípeðið á f-línunni) að hvíta h-peðið verður frípeð. Sterkara var því að leika 38...De6.

39. Dxf6 gxf6



Á meðan á skákinni stóð hélt ég að þessi staða hlyti að vera unnin á svart. En staðreyndin er sú að þótt vinningsmöguleikarnir séu auðvitað hjá svörtum er mikið verk framundan að vinna skákina ef hvítur teflir af skynsemi.

40. Kg2 Hg8+

Aftur hélt ég að svartur hagnaðist á frekari uppskiptum, en svo er ekki. Betra var auðvitað að halda báðum hrókunum á borðinu með t.d. 40...Hd3.

41. Kf2 Hxg1 42. Kxg1



Hvíti biskupinn stendur afkáralega á d1 og öll hvítu peðin eru á reitum samlitum biskupnum. En vandi svarts er sá að þar sem svarti kóngurinn verður að vakta hvíta h-peðið verður hitt frípeðið á c4 mjög hættulegt.

42...Hd8 43. Be2 Hb8 44. Bd1 Hd8 45. Be2 Hd2 46. Kf2!

Hvítur lætur b-peðið sigla sinn sjó og virkjar kónginn sem hyggst styðja við framrás c-peðsins.

46...Hb2 47. Ke3 Hxb3+ 48. Kd4 Hb2 49. Bd3 a5 50. c5 a4 51. c6 Hb8 52. Kc5 a3 53. Bc4 Kg7 54. c7 Hf8 55. Kc6



55...f5

Einfaldast.

56. exf5 Kf6 57. Kd7 Kxf5 58. c8D Hxc8 59. Kxc8 f6 60. Kd7 Kg5 61. Ke6 f5 62. Ke5 f4 63. Ke4 Kxh5

1/2 - 1/2

Friday, September 9, 2011

Hugmynd!

Hvaða hugmynd? Jú, þegar maður hefur ekkert annað að gera á föstudagskvöldi er tilvalið að byrja að blogga. Ég hef verið skákáhugamaður í 25 ár. Það liggur því beinast við að reyna að blogga um skák. Í gegnum tíðina hef ég gert eitthvað af því að skýra skákir sem ég hef teflt í ýmsum mótum. Hef ekki verið duglegur við þetta en á þó nokkrar skákir á lager, aðallega tapskákir reyndar því mér var snemma sagt að það borgaði sig að eyða mestum tíma í að stúdera tapskákirnar. Mér finnst því gráupplagt að nota þennan vettvang til þess að birta og skýra skákir, aðallega eigin skákir (enda vekja þær alltaf mestan áhuga hjá manni sjálfum) og kannski einstaka aðrar skákir sem gleðja augað. Ef til vill verður síðan hægt að blogga um önnur áhugamál endrum og eins.